HSK/Selfoss bikarmeistari 15 ára og yngri

A-lið HSK/Selfoss fagnar sigri. Ljósmynd: FRÍ/Myndir: Marta Siljudóttir

A-lið HSK/Selfoss sigraði í bikarkeppni 15 ára og yngri í frjálsum íþróttum sem haldin var í Kaplakrika í Hafnarfirði síðastliðinn laugardag. HSK/Selfoss sendi þrjú lið til leiks, tvö í stúlknaflokki og eitt í piltaflokki.

HSK/Selfoss fékk 101 stig í heildarstigakeppninni og hafði betur í æsispennandi keppni gegn ÍR, sem varð í 2. sæti með 98 stig. HSK/Selfoss sigraði með yfirburðum í piltakeppninni, með 51 stig en Ungmennafélag Akureyrar varð í 2. sæti með 39 stig. HSK/Selfoss varð í 3. sæti í stúlknakeppninni með 50 stig eftir harða keppni við ÍR.

Sunnlensku krakkarnir stóðu sig mjög vel og mikið var um persónulegar bætingar. Alls voru sjö HSK-met sett á mótinu og athygli vekur að þrír keppendur frá Íþróttafélaginu Dímoni á Hvolsvelli settu HSK-met. Trúlega er það í fyrsta sinn sem svo margir keppendur frá Dímon ná að setja HSK met á sama mótinu.

Ívar og Hjálmar settu mótsmet
Ívar Ylur Birkisson, Dímon og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, gerðu sér lítið fyrir og settu mótsmet. Ívar Ylur í 60 m grindahlaupi, þar sem hann hljóp á 8,56 sek og var aðeins 0,01 sek frá Íslandsmetinu í sínum aldursflokki en hann bætti eigið HSK-met um 0,13 sek. Hjálmar Vilhelm kastaði kúlunni 14,86 m sem er mótsmet. Ívar Ylur sigraði einnig í 300 m hlaupi og Hjálmar tók gullið í hástökki.

Eðvarð Eggert Heiðarsson, Dímon, sem er aðeins 12 ára gamall, hljóp frábærlega í 1.500 m hlaupi, varð þriðji á 5:13,81 mín og er það HSK met í hans aldursflokki. Þeir Ívar Ylur, Hjálmar Vilhelm, Eðvarð og Vésteinn Loftsson sigruðu svo í 4×200 m hlaupi.

Fimm héraðsmet hjá stúlkunum
Hjá stúlkunum kom Helga Fjóla Erlendsdóttir, Garpi, fyrst í mark í 60 m grind á 9,39 sek, sem er stórbæting hjá henni og HSK-met bæði í 14 og 15 ára flokki. Bríet Bragadóttir átti metin í þessum flokkum, 9,76 sek í 14 ára flokki og 9,45 sek í 15 ára flokki. Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, bætti sig um 95 cm í kúluvarpi og kastaði lengst allra, 11,42 m.

Bryndís Halla Ólafsdóttir, Dímon, hljóp glæsilegt 1.500 m hlaup, kom þriðja í mark á 5:25,74 mín og er það HSK met í 13 og 14 ára flokkum. Metið í 13 ára flokki átti Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, 5:42,63 mín og 14 ára metið átti Valgerður Einarsdóttir, en það var 5:32,94 mín

Þá kom Adda Sóley Sæland, Umf. Selfoss, fjórða í mark í 300 m hlaupi á 46,28 sek sem er HSK met í 13 ára flokki. Adda bætti met Hrefnu Sifjar Jónasdóttur um tvær sekúndur sléttar.

Fyrri grein101. héraðsþing HSK haldið á Hellu
Næsta greinGular viðvaranir framlengdar