HSK með lið í bikarblakinu

Bikarkeppni Blaksambands Íslands hófst um síðustu helgi og er fyrsta umferðin í gangi þessa dagana. Héraðssambandið Skarphéðinn á fjögur fulltrúalið í bikarkeppninni í ár.

Fyrirkomulagi bikarkeppninnar var breytt í vor með það að vonarljósi að fjölga þátttökuliðum sem tókst svo sannarlega því alls eru 27 lið skráð í keppnina.

Sem fyrr segir á HSK fjögur fulltrúalið í keppninni í ár, Hrunamenn skráðu sig undir eigin nafni bæði í karlaflokki og kvennaflokki en að auki er sitt hvort karla- og kvennaliðið skráð undir merkjum HSK. Þeir sem eru í félögum innan HSK eru gjaldgengir í því liði.

Æfingar hafa fram að þessu farið fram í Hveragerði á fimmtudögum og eru öllum opnar.

Með auknum fjölda liða í ár er leikið í fyrsta sinn í langan tíma með útsláttarfyrirkomulagi. Liðum er raðað inn í umferðir eftir styrkleika þannig að úrvalsdeildarlið koma síðast inn og gefur það þá neðri deildar liðum kost á að spila við lið af sambærilegri getu áður en þau fá tækifæri á að takast á við risana í úrvalsdeildinni.

Fyrsti leikur heimaliðanna frá HSK í kvennaflokki fer fram núna á morgun þriðjudag 27. október á Laugarvatni kl 20:30. Þá eigast einmitt við lið HSK og lið Hrunamanna.

Karlarnir í HSK eiga svo sinn fyrsta leik á miðvikudaginn 28. október í Hveragerði kl 19:30 við lið frá Keflavík. Hrunamenn fá að sitja hjá í fyrstu umferðinni í karlaflokki en koma inn í aðra umferð sem fer fram í nóvember og bætast þá við sigurliðin úr fyrstu umferðinni.

Fyrri greinKynningarfundur Lions í kvöld
Næsta greinSæmundur gefur út verðlaunabók