HSK í 5. sæti stigakeppninnar

Lið HSK varð í 5. sæti í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fram fór í Laugardalshöllinni í dag. Fjóla Signý Hannesdóttir varð bikarmeistari í 60 m grindahlaupi.

Kvennalið HSK varð í 4. sæti af sex liðum með 29 stig og karlaliðið í 5. sæti af sex liðum með 25 stig. Samtals varð HSK því í 5. sæti með 54 stig.

Fjóla Signý sigraði í 60 m grindahlaupi á 9,02 sekúndum og þá varð hún þriðja í hástökki, stökk 1,63 m.

Haraldur Einarsson varð annar í 60 m hlaupi á 7,16 sekúndum og þriðji í 60 m grindahlaupi á 9,13 sekúndum.

Ágústa Tryggvadóttir varð þriðja í kúluvarpi þegar hún kastaði 10,86 m og var aðeins einum sentimetra frá 2. sæti.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir bætti sig í 400 m hlaupi og setti HSK met í flokki 16-17 ára og flokki 18-19 ára, hljóp á 60,39 sek.

Kristinn Þór Kristinsson bætti HSK metið í 400 m hlaupi karla á 50,20 sekúndum. Haraldur Einarsson átti gamla metið, 50,47 sek.

Þá bætti karlasveit HSK í 4×400 m boðhlaupi héraðsmetið í greininni, hlupu á 3:37,24 mín og bættu gamla metið um rúmar fjórar sekúndur. Sveit HSK skipuðu þeir Jóhann Guðmundsson, Selfossi, Haraldur Einarsson, Vöku, Hreinn Heiðar Jóhannsson, Laugdælum og Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð.