HSK í 5. sæti stigakeppninnar

Lið HSK varð í 5. sæti í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fram fór í Laugardalshöllinni í dag. Fjóla Signý Hannesdóttir varð bikarmeistari í 60 m grindahlaupi.

Kvennalið HSK varð í 4. sæti af sex liðum með 29 stig og karlaliðið í 5. sæti af sex liðum með 25 stig. Samtals varð HSK því í 5. sæti með 54 stig.

Fjóla Signý sigraði í 60 m grindahlaupi á 9,02 sekúndum og þá varð hún þriðja í hástökki, stökk 1,63 m.

Haraldur Einarsson varð annar í 60 m hlaupi á 7,16 sekúndum og þriðji í 60 m grindahlaupi á 9,13 sekúndum.

Ágústa Tryggvadóttir varð þriðja í kúluvarpi þegar hún kastaði 10,86 m og var aðeins einum sentimetra frá 2. sæti.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir bætti sig í 400 m hlaupi og setti HSK met í flokki 16-17 ára og flokki 18-19 ára, hljóp á 60,39 sek.

Kristinn Þór Kristinsson bætti HSK metið í 400 m hlaupi karla á 50,20 sekúndum. Haraldur Einarsson átti gamla metið, 50,47 sek.

Þá bætti karlasveit HSK í 4×400 m boðhlaupi héraðsmetið í greininni, hlupu á 3:37,24 mín og bættu gamla metið um rúmar fjórar sekúndur. Sveit HSK skipuðu þeir Jóhann Guðmundsson, Selfossi, Haraldur Einarsson, Vöku, Hreinn Heiðar Jóhannsson, Laugdælum og Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð.

Fyrri greinRæktaði kannabis í blokk á Selfossi
Næsta greinEyjamenn hefndu fyrir bikartapið