HSK í 4. sæti eftir fyrri daginn

Lið HSK er í fjórða sæti að loknum fyrri keppnisdegi á Bikarkeppni Frljálsíþróttasambands Íslands sem fram fer á Akureyri.

Keppni hófst í gærkvöldi en lýkur síðdegis í dag.

Kristinn Þór Kristinsson sigraði í æsispennandi 1500 m hlaupi á 4:24,23 mín og Vigdís Guðjónsdóttir sigraði í spjótkasti 42,54 m.

Fjóla Signý Hannesdóttir var dugleg í stigasöfnuninni í gær. Hún sigraði í 400 m grindahlaupi á 60,67 sek. Hún varð önnur í hástökki, stökk 1,63 m og þriðja í þrístökki með stökk upp á 11,54 m.

Ágústa Tryggvadóttir varð önnur í kúluvarpi kvenna þegar hún kastaði 11,58 m og Ólafur Guðmundsson varð þriðji í kúluvarpi karla, kastaði 12,95 m.