HSK-ganga á Arnarfell við Þingvallavatn

HSK tekur þátt í verkefninu Fjölskyldan á fjallið, líkt og undanfarin ár og tilnefnir tvö ný fjöll í verkefnið í ár. Þetta eru Arnarfell við Þingvallavatn og Vatnsdalsfjall í Rangárþingi.

HSK mun standa fyrir fjölskyldugöngum á bæði fjöllin. Gengið verður á Arnarfell fimmtudaginn 4. júní kl. 18:00 og eru allir velkomnir. Göngustjóri verður Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður og forseti Ferðafélags Íslands. Að göngu lokinni gefst fólki tækifæri á að skoða kirkjuna á Þingvöllum og þiggja veitingar.

Arnarfell er grasi gróið fjall við Þingvallavatn. Best er að ganga á fjallið norðaustan vert, þ.e.a.s. upp þá öxl sem snýr að Þingvöllum. Slóðinn að fjallinu liggur af Þingvallavegi nr. 36. Afleggjarinn að fjallinu er um 3,5 km norðan við vegamót Þingvallavegar og Lyngdalsheiðarvegar. Þar er hlið á girðingunni skammt frá upplýsingaskilti vegagerðarinnar. Heppilegt er að leggja bílum inni á slóðanum eða á Þingvallaveginum. Útsýni er ótrúlega mikið af fjallinu. Fjallið er móbergshryggur með margvíslegum bergmyndunum og gróðri. Vestan undir fjallinu er eyðibýlið Arnarfell en þar var búið fram á seinni hluta síðustu aldar.

Gengið verður á Vatnsdalsfjall 18. júní nk., nánar auglýst síðar.

Fyrri greinSuðurlandsvegur verður 2+1 milli Hveragerðis og Selfoss
Næsta greinMorgunverður, hlutavelta og hrossamessa