HSK bikarmeistari 15 ára og yngri

Sigurlið HSK í Bikarkeppni 15 ára og yngri 2020. Ljósmynd/FRÍ

Lið HSK sigraði í bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands 15 ára og yngri sem fram fór á Selfossi síðastliðinn laugardag.

A-lið HSK sigraði í heildarstigakeppninni með 110 stig, Ármann varð í 2. sæti með 103 stig og Breiðablik í 3. sæti með 96 stig. B-lið HSK varð í 5. sæti með 65 stig. Sjö lið kepptu í tuttugu greinum um bikarmeistartitilinn. HSK/Selfoss hefur sigrað þessa keppni fjórum sinnum á síðustu fimm árum.

Í stúlknakeppninni sigraði Ármann með 61 stig en A-lið HSK varð í 2. sæti með 52 stig. B-lið HSK varð í 6. sæti með 31 stig. Í piltakeppninni sigraði Breiðablik með 62 stig en A-lið HSK varð í 2. sæti með 58 stig. B-lið HSK varð í 5. sæti með 34 stig.

Ísold Assa jafnaði Íslandsmet
Hvað varðar einstakan árangur var hápunktur mótsins jöfnun á Íslandsmeti í 13 ára flokki stúlkna. Ísold Assa Guðmundsdóttir, HSK, sigraði í greininni og sveif yfir 1,63 metra. Hún jafnaði þar með 44 ára gamalt landsmet Írisar Eddu Jónsdóttur, Breiðabliki. Metið er að sjálfsögðu einnig héraðsmet en Ísold Assa bætti þar fjögurra ára gamalt met Evu Maríu Baldursdóttur um 3 cm.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, HSK, sigraði í 1.500 m hlaupi á nýju HSK meti í flokki 13 ára pilta. Eftir magnaðan endasprett hljóp Þorvaldur Gauti á 4:46,01 mín og stórbætti þar 54 ára gamalt héraðsmet Sigmundar Stefánssonar sem var 4:57,0 mín.

HSK eignaðist fjóra aðra bikarmeistara en Álfrún Diljá Kristínardóttir sigraði í kúluvarpi, Árbjörg Sunna Markúsdóttir í kringlukasti, Bríet Anna Heiðarsdóttir í spjótkasti og Daníel Breki Elvarsson í spjótkasti.

Fleiri héraðsmet féllu á mótinu en Hjálmar Vilhelm Rúnarsson bætti spjótkastmetið í 12 ára flokki með 600 gr spjóti, kastaði 31,05 m. Jón Arnar Magnússon átti gamla metið, 30,60 m sett árið 1981.

Ísold Assa Guðmundsdóttir stökk hæð sína í fullum herklæðum og jafnaði Íslandsmet í 13 ára flokki. Ljósmynd/Guðrún Ása Kristleifsdóttir
Fyrri greinVatnið á Klaustri í lagi
Næsta greinVélhjólamaður slasaðist við Heklu