Hrunamenn/Laugdælir draga sig úr keppni

Sameinað lið Hrunamanna/Laugdæla hefur dregið lið sitt úr keppni í 1. deild karla í körfubolta. Hrunamenn/Laugdælir sigruðu 2. deild karla á síðasta tímabili eftir að hafa unnið Gnúpverja í úrslitaeinvígi.

Gnúpverjar sem einnig fóru upp í 1. deild halda ótrauðir áfram og til stóð að Hrunamenn/Laugdælir myndu stilla upp liði í 1. deild en stjórn liðsins hefur nú tilkynnt KKÍ að af því verði ekki og liðið því dregið úr keppni. Einungis þrjár vikur eru þangað til keppni í 1. deild karla hefst.

Þar sem deildin mun eingöngu innihalda níu lið í vetur hefur því verið ákveðið að leika þrefalda umferð og leika því öll lið 24 leiki í vetur. Fyrir vikið mun ekkert lið falla niður 2. deild karla á þessu tímabili.

Karfan.is greinir frá þessu og þar er rætt við Árna Þór Hilmarsson, þjálfara liðsins. Hann segir að ákvörðunin hafi verið erfið því mikið hafði áunnist síðastliðinn vetur.

„Rekstur og árangur var vonum framar. Það reyndist þó erfitt að fá fólk til þess að koma að starfinu í kringum meistaraflokkinn. Forsvarsmenn félaganna mátu því stöðuna þannig að ekki myndi takast að halda úti 1. deildarliði í vetur,” sagði Árni Þór í samtali við karfan.is.