Hrunamenn unnu góðan sigur á Selfyssingum í 1. deild karla í körfubolta á Flúðum í gærkvöldi. Lokatölur urðu 88-86.
Hrunamenn byrjuðu betur og náðu ellefu stiga forystu í 1. leikhluta, 28-17. Munurinn jókst enn frekar í upphafi 2. leikhluta og í hálfleik voru heimamenn yfir, 56-41.
Selfyssingar hófu endurkomu sína undir lok 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða var munurinn orðinn 5 stig, 71-66. Leikurinn var æsispennandi eftir það en Hrunamenn náðu að halda aftur af öllum áhlaupum Selfyssinga. Munurinn varð minnstur eitt stig á lokamínútunni en nær komust Selfyssingar ekki.
Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 29 stig og 7 fráköst, Aleksi Liukko var með tröllatvennu, 24 stig og 28 fráköst auk 5 stoðsendinga og Sam Burt skoraði 22 stig og tók 5 fráköst.
Hjá Selfyssingum var Tykei Greene með 35 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 15 stig og tók 10 fráköst og Ebrima Jassey Demba skoraði 15 stig.
Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 10. sæti með 8 stig en Hrunamenn í 11. sæti með 6 stig.