Hrunamenn unnu í framlengingu – Hamar tapaði

Eyþóri og Óðni Árnasonum leiðist ekki að vinna Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var æsispenna á Flúðum í kvöld þar sem Hrunamenn og Selfoss áttust við í 1. deild karla í körfubolta. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit. Á sama tíma tapaði Hamar gegn Fjölni á útivelli.

Leikur Hrunamanna og Selfoss var hnífjafn allan tímann. Staðan í hálfleik var 37-41, Selfyssingum í vil. Sama baráttan hélt áfram í seinni hálfleik þar sem liðin héldust algjörlega í hendur og staðan var 82-82 þegar lokaflautan gall.

Í framlengingunni voru Hrunamenn mun sprækari, þeir skoruðu fyrstu sex stigin og komust fljótlega í 90-83. Selfyssingar reyndu að komast aftur inn í leikinn en tíminn var of naumur og lokatölur urðu 92-87.

Hjá Hrunamönnum var Kent Hanson stigahæstur með 29 stig en megnið af byrjunarliðinu gaf gott framlag. Hjá Selfyssingum var Trevon Evans stigahæstur með 30 stig og 10 stoðsendingar og Gasper Rojko var sömuleiðis öflugur með 20 stig með 17 fráköst.

Hamar elti allan tímann
Á sama tíma áttust Hamar og Fjölnir við í hörkuleik í Grafarvoginum. Fjölnir náði góðu forskoti í 1. leikhluta en eftir það voru Hamarsmenn sterkari og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Staðan í hálfleik var 54-37. Þegar tæpar fimm mínútur voru eftir var munurinn orðinn fimm stig, 87-82, en nær komust Hvergerðingar ekki. Fjölnir lagaði vörnina á lokamínútunum og lokatölur urðu 96-89. Dareial Franklin átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 48 stig og tók 10 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 6. sæti með 20 stig, Hrunamenn í 7. sæti með 18 stig og Hamar í 9. sæti með 8 stig.

Fyrri greinNýja félagið heitir Jökull
Næsta greinMaðurinn fannst heill á húfi