Hrunamenn unnu grannaslaginn

Yngvi Freyr Óskarsson skoraði 15 stig fyrir Hrunamenn í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn unnu öruggan sigur á nágrönnum sínum frá Selfossi í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, þegar liðin mættust á Flúðum.

Leikurinn fór rólega af stað en Hrunamenn byrjuðu mun betur, skoruðu fyrstu sex stigin og höfðu frumkvæðið framan af. Staðan var 25-16 eftir 1. leikhluta en í 2. leikhluta fór sóknarleikurinn að ganga betur hjá Selfyssingum og þeir náðu að minnka muninn í eitt stig, 34-33. Þá tóku Hrunamenn aftur við sér og fóru með öruggt forskot inn í leikhléið, 44-35.

Í seinni hálfleik varð snemma ljóst í hvað stefndi. Hrunamenn nutu augnabliksins og spiluðu vel á meðan allt kjarnfóður vantaði í Selfyssinga. Þeir hittu mjög illa á köflum og áttu í erfiðleikum með að finna taktinn í sókninni. Munurinn var þó ekki nema sjö stig þegar síðasti fjórðungurinn hófst en þar skoruðu Hrunamenn ellefu fyrstu stigin og eftir það var allur vindur úr Selfyssingum. Lokatölur urðu 92-71.

Kent Hanson var stigahæstur Hrunamanna með 28 stig og daðraði við þrefalda tvennu. Yngvi Freyr Óskarsson átti frábæran leik, skoraði 26 stig og tók 12 fráköst og Clayton Ladine skoraði 18 stig. Hjá Selfyssingum var Gasper Rojko bestur, hann var frábær í fyrri hálfleiknum þar sem hann skoraði 22 af 29 stigum sínum.

Í kvöld heimsótti Hamar Fjölni í 1. deildinni. Hamar byrjaði leikinn afleitlega. Staðan í hálfleik var 70-35 og úrslitin ráðin. Lokatölur urðu 109-77. Dareal Franklin var stigahæstur hjá Hamri með 27 stig, Ragnar Sigurjónsson skoraði 15 og Joao Lucas 12 auk þess sem hann tók 10 fráköst.

Hrunamenn eru nú í 6. sæti deildarinnar með 6 stig en Selfoss er í 5. sæti með 8 stig. Hamar er í 7. sætinu með 4 stig.

Tölfræði Hrunamanna: Kent Hanson 28/8 fráköst/7 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson 26/12 fráköst, Clayton Ladine 18/9 fráköst/7 stoðsendingar, Óðinn Freyr Árnason 8, Kristófer Tjörvi Einarsson 4/4 fráköst, Eyþór Orri Árnason 4, Orri Ellertsson 2, Þórmundur Smári Hilmarsson 2/6 fráköst.

Tölfræði Selfoss: Gasper Rojko 29/6 fráköst/3 varin skot, Vito Smojer 15, Trevon Evans 14/8 fráköst/7 stoðsendingar, Óli Gunnar Gestsson 7/10 fráköst, Arnar Geir Líndal 3, Sigmar Jóhann Bjarnason 2/7 fráköst, Þorgrímur Starri Halldórsson 1/4 fráköst.

Fyrri greinGul viðvörun: Líkur á samgöngutruflunum
Næsta grein„Mikilvægt að lögmaður sé einlægur og auðmjúkur“