Hrunamenn steinlágu á heimavelli

Hrunamenn fengu stóran skell á heimavelli í kvöld þegar liðið tók á móti Ými í 4. deild karla í knattspyrnu. Lokatölur á Flúðavelli urðu 1-12.

Heimamenn fengu reyndar óskabyrjun því Hafþór Ingi Ragnarsson kom þeim í 1-0 með frábæru marki á upphafsmínútunum. Kjartan Sigurðsson var svo nálægt því að koma Hrunamönnum í 2-0 skömmu síðar en markvörður gestanna varði vel og Hafþór Ingi var nálægt því að ná frákastinu.

Eftir þessar fjörugu upphafsmínútur tóku Ýmismenn öll völd á vellinum. Þeir jöfnuðu metin á 20. mínútu og komust svo yfir fimm mínútum síðar. Hafþór Ingi slapp innfyrir vörn Ýmis í stöðunni 1-2 en skot hans var varið. Það var síðasta færi Hrunamanna í fyrri hálfleik en í kjölfarið fylgdi stórsókn gestanna sem skoruðu fjögur mörk á skömmum tíma og leiddu 1-6 í hálfleik.

Aðeins voru nokkrar sekúndur liðnar af síðari hálfleik þegar staðan var orðin 1-7 og gestirnir skoruðu svo með reglulegu millibili í seinni hálfleiknum án þess að Hrunamenn næðu að svara. Nói Mar Jónsson var næstur því að minnka muninn fyrir Hrunamenn en markvörður Ýmis varði skot hans í þverslána og yfir.

Hrunamenn náðu ekki að stilla upp sínu sterkasta liði í leiknum enda annir í heyskap í uppsveitunum. Ekki bætti úr skák að á 65. mínútu fór Kjartan Sigurðsson, fyrirliði Hrunamanna, meiddur af velli og þar sem heimamenn voru búnir með skiptingarnar spiluðu þeir manni færri síðustu 25 mínúturnar.

Hrunamenn eru í 6. sæti C-riðils 4. deildarinnar með 2 stig.

Fyrri greinKrem við skordýrabiti seldist upp í Hveragerði
Næsta greinNýr áfangastaður afhjúpaður við Þykkvabæ