Hrunamenn sigruðu – Hamri kippt niður á jörðina

Ahmad Gilbert skoraði 37 stig og tók 9 fráköst fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir góðan sigur á toppliði Álftaness í síðustu umferð var Hamri kippt niður á jörðina þegar þeir mættu botnbaráttuliði ÍA á Akranesi í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Skagamenn sigruðu 97-91. Á sama tíma lögðu Hrunamenn Ármann örugglega á Flúðum.

Leikur ÍA og Hamars var jafn í fyrri hálfleik. Hamar náði góðum kafla í 2. leikhluta og leiddi 45-51 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var hnífjafn allan tímann en Hamar missteig sig á lokamínútunni, þar sem ÍA skoraði síðustu átta stig leiksins og tryggði sér sex stiga sigur. Jose Medina var stigahæstur hjá Hamri með 24 stig en Ragnar Nathanaelsson var framlagshæstur með 16 stig og 18 fráköst.

Það var líka hörkuleikur á Flúðum þar sem Ármenningar voru í heimsókn. Hrunamenn byrjuðu betur en gestirnir sneru leiknum sér í vil í 2. leikhluta og leiddu 45-47 í hálfleik. Í seinni hálfleiknum voru heimamennirnir sterkari, þeir náðu 10 stiga forskoti í 3. leikhluta en spenna hljóp í leikinn þegar 5 mínútur voru eftir þegar Ármenningar komust yfir. Þá sögðu Hrunamenn stopp, þeir skoruðu 12 síðustu stigin í leiknum og tryggðu sér 93-83 sigur. Ahmad Gilbert og Samuel Burt voru magnaðir í liði Hrunamanna, Gilbert skoraði 37 stig og tók 9 fráköst og Burt skoraði 23 stig og tók 12 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 34 stig, jafnmörg stig og topplið Álftaness, sem á leik til góða. Hrunamenn eru í 7. sæti með 16 stig, tveimur stigum á eftir Selfyssingum, sem eru í 6. sætinu.

ÍA-Hamar 97-91 (25-20, 20-31, 24-19, 28-21)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 24/11 stoðsendingar, Brendan Howard 19/9 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 16/18 fráköst, Elías Bjarki Pálsson 14, Daði Berg Grétarsson 6/5 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 6, Haukur Davíðsson 4, Alfonso Birgir Gomez 2/5 fráköst.

Hrunamenn-Ármann 93-83 (24-19, 21-28, 25-20, 23-16)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 37/9 fráköst, Samuel Burt 23/12 fráköst, Friðrik Heiðar Vignisson 14, Eyþór Orri Árnason 6/6 fráköst/6 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson 5/6 fráköst/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 4, Dagur Úlfarsson 4.

Fyrri greinHvetja ríkið til að meta stöðu raforkuframleiðslu á landinu
Næsta greinFyrsti sigur Selfoss í Lengjunni