Hrunamenn semja við tvo Króata

Jasmin Perkovic. Ljósmynd/Feykir

Körfuknattleikslið Hrunamanna hefur samið við tvo króatíska leikmenn um að leika með liðinu í 1. deild karla á komandi leiktíð.

Þetta eru þeir Jasmin Perkovic, sem lék með Tindastóli í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, og Karlo Lebo.

Perkovic er 2,06 metr­ar á hæð og gríðarlega reynslumikill enda orðin 39 ára gamall. Hann hef­ur komið víða við og m.a. leikið með liðum í Slóven­íu, Bosn­íu, Grikklandi, Ítal­íu og Þýskalandi. Auk þess að leika með Hrunamönnum verður hann aðstoðarþjálfari liðsins og er mikils vænst af hans störfum innan vallar sem utan.

Lebo er 26 ára með góða leikreynslu, 1,96 m á hæð og skemmtilega örvhentur. Hann getur leyst margar stöður á vellinum og telst öflugur varnarmaður. Lebo var hluti af öflugu yngri landsliði Króata sem landaði Evrópumeistaratitlum árin 2010 og 2012 og spilaði hann stóra rullu hjá liðinu bæði árin.

Að sögn Árna Þórs Hilmarssonar, þjálfara Hrunamanna, koma báðir leikmennirnir til með að starfa á svæðinu samhliða því að leika körfubolta og eru væntanlegir til landsins í lok ágúst eða byrjun september.

Fyrri greinMetmánuður í fasteignasölu
Næsta greinSlasaðist þegar skurður féll saman