Hrunamenn réðu ekki við Hött

Eyþór Orri Árnason skoraði 10 stig fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn tóku á móti Hetti frá Egilsstöðum í 1. deild karla í körfubolta í dag. Gestirnir voru sterkari og sigruðu 97-111.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta, Hattarmenn voru skrefinu á undan og leiddu eftir tíu mínútur, 22-26. Það var svo boðið upp á stórskotahríð í stórskemmtilegum 2. leikhluta, þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna en gestirnir lokuðu fyrri hálfleik með þriggja stiga körfu og voru yfir í leikhléi, 53-56.

Þegar leið á 3. leikhluta syrti í álinn hjá Hrunamönnum og gestirnir juku forskotið hratt. Þeir breyttu stöðunni úr 63-63 í 68-87 á skömmum tíma og þó að Hrunamenn kæmu til baka í 4. leikhluta þá var munurinn orðinn of mikill.

Clayton Ladine var öflugur í liði Hrunamanna, skoraði 39 stig, tók 7 fráköst og sendi 8 stoðsendingar.

Hrunamenn eru nú í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en Hattarmenn eru í 2. sæti með 16 stig.

Tölfræði Hrunamanna: Clayton Ladine 39/7 fráköst/8 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson 18/8 fráköst, Karlo Lebo 17/9 fráköst, Eyþór Orri Árnason 10, Orri Ellertsson 8, Kristófer Tjörvi Einarsson 4/6 fráköst, Þórmundur Smári Hilmarsson 1.

Fyrri greinSelfyssingar saltaðir í Vestmannaeyjum
Næsta greinHamar vann KA tvisvar