Hrunamenn og Selfoss töpuðu

Chancellor Calhoun-Hunter. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn og Selfyssingar töpuðu sínum leikjum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Bæði lið léku á heimavelli.

Leikur Hrunamanna og Skallagríms á Flúðum var jafn í fyrri hálfleik en gestirnir leiddu í leikhléi, 44-46. Róðurinn fór að þyngjast hjá Hrunamönnum þegar leið á seinni hálfleikinn og undir lok 3. leikhluta gerði Skallagrímur áhlaup og náði 11 stiga forskoti. Gestirnir stungu svo af í síðasta fjórðungnum og sigruðu að lokum 81-101.

Chancellor Calhoun-Hunter var allt í öllu í sókninni hjá Hrunamönnum og skoraði 40 stig, Aleksi Liukko kom næstur með 18 stig og 17 fráköst.

Selfyssingar fóru vel af stað gegn KR í Gjánni, spiluðu fína vörn og staðan var 19-18 að loknum 1. leikhluta. Eftir það voru KR-ingar allsráðandi og Selfyssingum gekk ekkert að halda aftur af þeim. Staðan í hálfleik var 31-47 og munurinn jókst hratt í seinni hálfleik. Gestirnir unnu að lokum 46 stiga sigur, 62-108.

Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 21 stig og 11 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 20 og tók einnig 11 fráköst.

Staðan í neðri hluta deildarinnar er óbreytt. Selfoss er í 9. sæti með 6 stig og Hrunamenn í 11. sæti með 4 stig.

Fyrri greinEr Erna Hrönn Irene Cara Íslands?
Næsta greinEinstefna á Ásvöllum