Hrunamenn og Hamar meistarar

Seinni hluti héraðsmóts HSK í blaki kvenna og karla fór fram í síðustu viku. Lið Hamars 1 varð meistari í kvennaflokki og Hrunamenn urðu meistarar í karlaflokki.

Konurnar spiluðu í Hveragerði þriðjudaginn 5. apríl. Að þessu sinni var aðeins spilað í einni deild í héraðsmótinu en ekki tveimur líkt og þrjú undanfarin ár og var ástæðan sú að sjö lið voru skráð sem hentar mjög heppilega til að spila eina umferð. Einnig hefur nýliðunum farið vel fram og geta alveg staðið í reyndari liðunum.

Liðin áttu ýmist 2 eða 3 leiki eftir í umferðinni á þriðjudagskvöldið og var ekkert ráðið um úrslitin fyrirfram. Enda fór það svo að fyrir lokaleikinn milli Dímons-Heklu 1 og Hamars 1 gátu Dímon-Hekla 1, Hamar 1 og UMFL öll endað með 15 stig. Það fór þó svo að Hamar 1 reyndist sterkari aðilinn í leiknum, þær unnu hann 2-0 og fóru því sælar heim með bikarinn og héraðsmeistaratitilinn fyrir leiktíðina 2015-16, en þær töpuðu ekki einni hrinu í öllu mótinu. Til hamingju Hamar 1. Lokaröð liða og úrslit leikja má svo sjá hér að neðan.

Karlarnir léku seinni hlutann á Laugarvatni miðvikudaginn 6. apríl. Þar áttu öll liðin eftir 2 leiki í umferðinni sem réðu því svo hvaða lið myndu spila saman til úrslita um 1., 3. og 5. sætið. Því miður átti lið Selfoss ekki heimangengt þetta kvöld og töpuðu þeir því sínum leikjum sjálfkrafa 2-0. Heimamenn í UMFL hlupu þó í skarðið og spiluðu við liðin sem áttu leiki við Selfoss þetta kvöld þannig að ekkert lið var svikið af því að fá ekki að spila réttan fjölda leikja.

Það kemur kannski ekki á óvart að lið Hamars 1 og Hrunamanna stóðu efst að lokinni umferðinni og léku til úrslita. Lið UMFL og Hamars 2 léku um 3. sætið, en Dímon átti 5. sætið öruggt þar sem Selfoss mætti ekki. Þó svo að Hamar 1 hafi verið stigi ofar en Hrunamenn að lokinni umferðinni voru Hrunamenn ekki tilbúnir til að afhenda þeim sigurinn. Hamar 1 byrjaði betur í úrslitaleiknum og vann fyrstu hrinuna en seiglan í Hrunamönnum verður ekki af þeim tekin og unnu þeir aðra hrinuna og að lokum oddahrinuna einnig. Þeir hampa því héraðsmeistaratitlinum á ný, til hamingju Hrunamenn. Lokaröð liða og úrslit leikja má sjá á www.hsk.is.

Gunnhildur Hinriksdóttir

Fyrri greinDagný skoraði í sigri Íslands
Næsta greinSlökkviliðsmönnum boðið upp á sölvakryddaðan þorsk