Hrunamenn meistarar eftir háspennuleik

Hrunamenn urðu í kvöld Íslandsmeistarar í 2. deild karla í blaki eftir æsispennandi viðureign gegn B-liði HK.

Frábær stemmning var í íþróttahúsinu á Flúðum í kvöld, fullt hús af stuðningsfólki og leikurinn gríðarlega spennandi – einn sá svakalegasti sem spilaður hefur verið í húsinu á Flúðum.

Fyrir leikinn áttu HK-menn möguleika á 1. sætinu með hagstæðum úrslitum en Hrunamenn voru harðákveðnir í að láta gestina ekki komast upp með það. Heimamenn höfðu betur í viðureigninni, 3-1, en hrinurnar fóru 22-25, 25-22, 33-31 og 25-22.

Heimavöllurinn hefur verið Hrunamönnum dýrmætur í vetur í 2. deildinni en gengið í útileikjunum hefur verið upp og ofan þangað til í síðustu umferðunum.

Með sigrinum í kvöld luku Hrunamenn því keppni í 2. deildinni með 22 stig, Fylkismenn komu næstir með 19 stig, þá HK-B með 18 stig og Stjarnan-2 í 4. sæti með 17 stig. Neðst voru Hamar með 8 stig og UMFG með 6 stig.

Fyrri greinEnn ekið á Nesjavallaæðina – vegurinn lokaður
Næsta greinHerjólfur siglir í Landeyjahöfn