Hrunamenn magnaðir á heimavelli

Kent Hanson var í miklum ham í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn unnu magnaðan sigur á Fjölni á heimavelli í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 116-107.

Liðin lögðu allt kapp á sóknina í upphafi leiks og staðan var 32-31 eftir 1. leikhluta. Heimamenn náðu að auka forskotið í 2. leikhluta, þar sem þeir héldu áfram að hitta vel en staðan var 61-53 í hálfleik.

Hrunamenn lögðu svo grunninn að sigrinum með frábærum 3. leikhluta, en þeir skoruðu 39 stig í fjórðungnum og juku forskotið í nítján stig, 100-81. Fjölnismenn sóttu í sig veðrið undir lokin en bilið var orðið of mikið og Hrunamenn fögnuðu góðum sigri gegn liðinu sem situr í 4. sæti deildarinnar.

Kent Hanson var kóngurinn á vellinum í kvöld, hann skoraði 40 stig, tók 10 fráköst og sendi 5 stoðsendingar. Clayton Ladine var sömuleiðis afkastamikill með 30 stig og 10 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson skoraði 14 stig og Þórumur Smári Hilmarsson skoraði 11 stig og tók 8 fráköst.

Þrátt fyrir sigurinn sitja Hrunamenn áfram í 8. sæti deildarinnar með 14 stig en Fjölnir er í 4. sæti með 24 stig.

Tölfræði Hrunamanna: Kent Hanson 40/10 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Clayton Ladine 30/4 fráköst/10 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson 14/4 fráköst/6 stoðsendingar, Þórmundur Smári Hilmarsson 11/8 fráköst, Kristófer Tjörvi Einarsson 8, Karlo Lebo 7, Óðinn Freyr Árnason 6.

Fyrri greinSelfoss mætir KA í undanúrslitunum
Næsta greinSelfyssingar unnu kjúklingaslaginn