Hrunamenn kvöddu Árna Þór með sigri

Hrunamenn eftir síðasta leik vetrarins þar sem Árni Þór Hilmarsson, fyrrum þjálfari liðsins var kvaddur. Ljósmynd/Hrunamenn

Hrunamenn unnu Hamar 106-95 í stórskemmtilegum leik í lokaumferð 1. deildar karla í körfubolta á Flúðum í gærkvöldi.

Heimamenn byrjuðu af miklum krafti, komust í 18-7 og leiddu 32-15 að loknum 1. leikhluta. Þá var komið að Hamarsmönnum sem svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og minnkuðu muninn í 50-40 áður en hálfleiksflautan gall.

Hamar hélt áfram að þjarma að Hrunamönnum í 3. leikhluta og undir lok hans var munurinn kominn niður í fjögur stig, 74-70. Þá sögðu Hrunamenn „hingað og ekki lengra“, skelltu aftur í gírinn og juku forskotið jafnt og þétt allan leikhlutann. Þeir komust í 106-85 en Hamar skoraði síðustu tíu stig leiksins á rúmum tveimur mínútum og minnkuðu muninn í 106-95.

Þetta var síðasti leikur Hrunamanna undir stjórn Árna Þórs Hilmarssonar. Hann hefur þjálfað liðið undanfarin fjögur ár og farið með það upp úr 3. deildinni, upp í þá fyrstu á þeim tíma. Honum var þakkað fyrir sitt framlag á Flúðum í gærkvöldi og drengirnir hans kvöddu hann með góðum sigri.

Clayton Ladine var með ótrúlegt framlag fyrir Hrunamenn, 40 stig og sendi 10 stoðsendingar. Að auki var hann með 6 fráköst og 6 stolna bolta sem skilar 50 í framlagseinkunn. Kent Hanson gaf honum lítið eftir, skoraði 34 stig og tók 14 fráköst, auk þess að senda 7 stoðsendingar.

Hjá Hamri dreifðist framlagið meira. Alfonso Birgir Gomez var stigahæstur með 16 stig, Benoný Svanur Sigurðsson skoraði 15 stig, Geir Elías Helgason 14, Björn Ásgeir Ásgeirsson 12 og Daði Berg Grétarsson 11, auk þess sem hann sendi 12 stoðsendingar og tók 6 fráköst.

Fyrri greinSandra nýr oddviti Okkar Hveragerði
Næsta greinB-listinn býður fram í Ölfusinu