Hrunamenn hittu illa

Karlo Lebo skoraði 12 stig fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn heimsóttu Skallagrím í Borgarnes í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Heimamenn voru sterkari og sigruðu 93-67.

Skallagrímur tók strax frumkvæðið, komst í 13-2 á upphafsmínútunum og leiddi 29-22 eftir 1. leikhluta. Jafnræði var með liðunum í 2. leikhluta en staðan var 44-37 í hálfleik.

Borgnesingar gerðu svo út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir fóru á kostum í sókn og vörn og snemma í 4. leikhluta var staðan orðin 85-55. Skotnýting Hrunamanna var slæm í leiknum en þeir klóruðu aðeins í bakkann í lokin og Óðinn Freyr Árnason skoraði síðustu sex stig leiksins með tveimur góðum þriggja stiga körfum.

Clayton Ladine var stigahæstur hjá Hrunamönnum með 15 stig en Kent Hanson skoraði 14 og tók 10 fráköst.

Hrunamenn eru í 7. sæti 1. deildarinnar með 4 stig en Skallagrímur vann fyrsta sigur vetrarins í kvöld og er með 2 stig í 9. sæti.

Tölfræði Hrunamanna: Clayton Ladine 15/5 fráköst/6 stoðsendingar, Kent Hanson 14/10 fráköst/5 stoðsendingar, Karlo Lebo 12/4 fráköst, Orri Ellertsson 10, Óðinn Freyr Árnason 6, Eyþór Orri Árnason 5, Kristófer Tjörvi Einarsson 3, Yngvi Freyr Óskarsson 2/7 fráköst.

Fyrri greinBláskógaskóli fékk vegleg verðlaun
Næsta greinMargrét ráðin deildarstjóri skólaþjónustu