Hrunamenn gáfu Haukum væna forgjöf

Clayton Ladine skoraði 21 stig fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hrunamenn fengu skell þegar þeir heimsóttu topplið Hauka í 1. deild karla í körfubolta á Ásvelli í Hafnarfirði í kvöld.

Það er ekki vænlegt til afspurnar, en er hér með komið á netið að eilífu, að Hrunamenn skoruðu aðeins þrjú stig í 1. leikhluta. Haukar komust í 21-0 og leiddu 33-3 að 1. leikhluta loknum. Staðan var orðin 40-5 snemma í 2. leikhluta og þá fór sóknarleikur Hrunamanna loksins að ganga en að sama skapi gekk þeim illa að stoppa Hauka í sókninni. Staðan var 62-33 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var hvorki fugl né fiskur, úrslitin löngu ráðin og Haukar bættu smátt og smátt við forskotið. Lokatölur urðu 119-71.

Clayton Riggs var stigahæstur Hrunamanna með 21 stig og 8 stoðsendingar en framlagshæstur var Kent Hanson með 19 stig og 11 fráköst, auk 6 stoðsendinga.

Hrunamenn eru áfram í 8. sæti deildarinnar með 14 stig en Haukar eru á toppnum með 40 stig.

Tölfræði Hrunamanna: Clayton Ladine 21/8 stoðsendingar, Kent Hanson 19/11 fráköst/6 stoðsendingar, Yngvi Freyr Óskarsson 13/7 fráköst, Hringur Karlsson 8, Þórmundur Smári Hilmarsson 5, Óðinn Freyr Árnason 3, Kristófer Tjörvi Einarsson 2/5 fráköst.

Fyrri greinÁtján þátttakendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins
Næsta greinJón Ingi sýnir fuglamyndir