Hrunamenn endurheimtu titilinn

Fyrsta mót vetrarins á vegum blaknefndar HSK var haldið á Laugarvatni mánudaginn 12. október. Þar öttu kappi þessir „venjulegu“, þ.e. Hamar með tvö lið, Hrunamenn og Laugdælir.

Dímon ætlaði að vera með en varð að hætta við á síðustu stundu vegna manneklu. Þar sem lið Dímon datt út ákvað mótsstjórinn og formaðurinn að spilað skyldi upp í 25 stig til að vinna hrinu í stað 21 stigs eins og venja er á hraðmóti.

Nokkuð góð keppni var á milli allra liðanna og gekk leikmönnunum frekar vel að halda sig frá netsnertingum, en nú er það aftur komið inn í blakreglurnar að netsnerting er með öllu bönnuð þegar verið er að spila eða reyna að spila boltanum.

Að öllum leikjum loknum var ljóst að Hrunamenn höfðu endurheimt titil sinn sem Hraðmótsmeistarar HSK en þeir töpuðu þeim titli til liðs Hamars í fyrra. Hrunamenn unnu alla sína leiki og fengu því fullt hús stiga eða 6 stig, lið Hamars 1 varð í öðru sæti með 3 unnar hrinur, UMFL náði 3. sætinu með 2 stig en Hamar 2 urðu neðstir að þessu sinni.

Úrslit:
Hrunamenn – Laugdælir: 2 – 0, 25-17, 25-17
Hrunamenn – Hamar 1: 2 – 0, 25-13, 25-22
Hrunamenn – Hamar 2: 2 – 0, 25-16, 25-22
Hamar 1 – Laugdælir: 2 – 0, 25-15, 25-22
Hamar 1 – Hamar 2: 1 – 1, 22-25, 25-16
Laugdælir – Hamar 2: 2 – 0, 25-24, 25-21

Fyrri greinGáfu 300 þúsund í Sjóðinn góða
Næsta greinHættustigi vegna Skaftárhlaups aflýst