Hrun hjá Þórsurum í síðasta fjórðungnum

Þór Þorlákshöfn skoraði aðeins átta stig á síðustu þrettán mínútunum gegn Stjörnunni í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Stjarnan sigraði 77-62.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Stjörnumenn voru allan tímann skrefinu á undan. Staðan var 37-36 í hálfleik.

Þriðji leikhlutinn var í járnum, Stjarnan var yfir lengst af en Þór komst yfir, 53-54, þegar þrjár mínútur voru eftir af fjórðungnum. Stjarnan skoraði hins vegar tíu síðustu stigin í 3. leikhluta og breytti stöðunni í 63-54.

Ekkert gekk í sókninni hjá Þórsurum í síðasta fjórðungnum. Guðmundur Jónsson skoraði fyrstu stig Þórs í leikhlutanum af vítalínunni þegar tæpar sex mínútur voru liðnar en þá var staðan 66-56.

Nær komust Þórsarar ekki því Stjarnan jók enn við forskotið undir lokin og lokatölur voru 77-62.

Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson voru einu Þórsararnir sem eitthvað kvað að í leiknum. Guðmundur var stigahæstur með 16 stig, Darri skoraði 11 eins og Ben Smith sem var með hrikalega skotnýtingu í leiknum.

Smith setti niður 3/7 tveggja stiga skot, 1/8 þriggja stiga og 4/15 af vítalínunni. Þannig gekk ekkert upp hjá Smith enda var Mýrdælingurinn Justin Shouse með hann í vasanum. Framlag Smith í leiknum var -2.

Fyrri greinDagný skoraði sigurmark Íslands
Næsta greinSoffía stefnir á 3. sætið