Ungmennin í Selfoss 2 heimsóttu Handboltafélag Heimaeyjar til Vestmannaeyja í 1. deild karla í handbolta í dag. Eftir jafnan leik lengst af hafði Selfoss 2 að lokum sigur, 29-35.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en HBH leiddi 15-13 í hálfleik. Allt var í járnum fyrra korterið í seinni hálfleik en þá hristu Selfyssingar af sér sjóriðuna og skoruðu sex mörk í röð. Þá voru fimm mínútur eftir af leiknum og Eyjamenn áttu engan möguleika á endurkomu.
Bjarni Valur Bjarnason og Hákon Garri Gestsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk, Skarphéðinn Steinn Sveinsson og Anton Breki Hjaltason skoruðu 5, Dagur Rafn Gíslason og Jónas Karl Gunnlaugsson 4, Dagbjartur Máni Björnsson og Jón Valgeir Guðmundsson 2 og Daníel Arnar Víðisson 1.
Einar Gunnar Gunnlaugsson varði 9 skot í marki Selfoss og Ísak Kristinn Jónsson 4.
Selfoss 2 er í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en HBH er áfram á botninum, í 12. sæti með 4 stig.

