Hrikalega naumt í Hveragerði

Hamarskonur töpuðu með minnsta mun gegn Njarðvík á heimavelli í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta í kvöld, 83-84.

Hamar var skrefi á undan á upphafsmínútunum og á síðustu fjórum mínútum 1. leikhluta breyttu þær stöðunni úr 13-10 í 29-16. Munurinn hélst svipaður í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 48-35.

Njarðvík þjarmaði rækilega að Hamri í 3. leikhluta og tókst þeim að snúa leiknum sér í vil á rúmum sex mínútum. Hamar svaraði með síðustu átta stigum 3. leikhluta og staðan að honum loknum var 66-60.

Síðasti fjórðungurinn var æsispennandi. Njarðvík jafnaði 70-70 þegar sjö mínútur voru eftir og eftir það var jafnt á flestum tölum. Þegar 67 sekúndur voru eftir af leiknum komst Hamar í 83-79 en það reyndist síðasta karfa liðsins í leiknum. Njarðvík skoraði sigurkörfuna þegar tuttugu sekúndur voru eftir en Hamar náði ekki góðu skoti í síðustu sókn sinni og leiktíminn rann út.

Katherine Graham átti stórleik fyrir Hamar og var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Hún skoraði 34 stig, tók 10 fráköst og sendi 9 stoðsendingar. Sam Murphy skoraði 29 stig en saman voru þær stöllur með 76% af skoruðum stigum hjá Hamri.