„Hrikalega flott hjá okkur að vinna 17 leiki af 22“

„Auðvitað vonar maður alltaf. Ég held að Framararnir hafi gefið allt í þetta. ÍBV er gríðarlega sterkt lið með marga gamla atvinnumenn og þeir voru bara heppnari í lokin.

Auðvitað hefði verið gaman ef Fram hefði náð stigi. Það hefði hjálpað okkur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, þegar úrslitin í Olísdeild karla í handbolta lágu fyrir í gærkvöldi.

Selfoss vann stórsigur á Víkingum, 37-26, en þurfti svo að treysta á að ÍBV myndi tapa stigum gegn Fram. Þeim leik lauk nokkrum mínútum síðar og fylgdust Selfyssingar með ÍBV tryggja sér titilinn með sigurmarki á lokasekúndunum. Patrekur var brattur þrátt fyrir það.

„Við erum að ná besta árangri Selfoss frá upphafi. Siggi Sveins og þessir gömlu þeir náðu þessu ekki svo að við getum verið stoltir af því. Það er hrikalega flott hjá okkur að vinna 17 leiki af 22 með þetta lið sem er ekkert aðkeypt. Atli Ævar er eini aðkomumaðurinn,“ segir Patrekur.

Krafa á okkur að vinna þennan leik
Um leikinn gegn Víkingi er ekki margt að segja en yfirburðir Selfyssinga voru miklir.

„Við áttum alveg von á því að Víkingarnir myndu draga tempóið niður og þeir gerðu það vel. Voru þolinmóðir og biðu bara eftir að við myndum missa einbeitinguna. Þetta var hægur leikur framan af og ekki líkur því sem við höfum verið að spila. Það var krafa á okkur að vinna þennan leik en þetta hikstaði samt hjá okkur í byrjun og ég átti alveg eins von á því. Ég hef spilað svona leiki sjálfur og við vorum kannski ekki eins beittir í sókninni í upphafi leiks eins og við erum vanir. Svo bara kláruðum við okkar og gerðum það vel. Við komumst jafnt og þétt yfir og leiddum 17-12 í hálfleik og svo kláruðum við leikinn á góðum kafla í upphafi seinni hálfleiks.“

Náðum okkar markmiðum í deild og bikar
Eftir að hafa náð 5. sætinu í Olísdeildinni í fyrra þá var Selfyssingum spáð 7. sætinu í ár, sem kom mörgum á óvart. Liðið sló hins vegar í gegn í vetur og Patrekur hafði ekki svör við því af hverju liðinu var spáð svona „neðarlega“.

„Ég veit það ekki. Þetta er ungt lið og þó að Selfoss hafi verið í 5. sæti í fyrra þá var liðið tveimur stigum frá falli. Þannig að kannski er það lógískt að spá ekki liðinu titli þó að þeir hafi spilað mjög vel á köflum í fyrra. En Selfoss hefur ekki verið í úrvalsdeildinni undanfarin ár og auðvitað er það gott hjá okkur á öðru ári í efstu deild að vera með jafnmörg stig og deildarmeistararnir. Okkar fyrsta markmið var að komast í úrslitakeppnina í deildinni og við settum okkur líka það markmið að komast í Final4 í bikarnum og vorum heppnir að komast þangað. Þegar við sáum að við gátum náð efsta sætinu í deildinni, sem var eftir síðasta leik, þá stefndum við auðvitað á það og vorum hársbreidd frá því. Þannig að við náðum bæði markmiðum okkar í bikarnum og í deildarkeppninni en núna byrjar bara nýtt mót. Næsta markmið er klárlega að komast áfram og vinna Stjörnuna og ég er viss um að öll hin liðin setji sér nákvæmlega sömu markmiðin í þessum einvígjum.“

Stoltur að við séum með landsliðsmenn
„Sagan segir okkur að það getur allt gerst. Ég lenti í 5. sæti í deildinni með Haukum og varð Íslandsmeistari, þegar ég vann deildina þá lentum við í 2. sæti. Valsarar voru í 7. sæti og unnu, þannig að það getur allt gerst í þessari keppni. En næst er bara æfing á morgun. Svo koma auðvitað landsliðsverkefni inn í þetta og ég er ánægður og stoltur að við séum með landsliðsmenn, Haukur og Teitur og Elvar og síðan eiga örugglega eftir að koma fleiri. Það eru líka gamlir Selfyssingar í atvinnumennsku eins og Janus og Ragnar og Bjarki Már og Selfyssingar geta verið virkilega stoltir af því. Ég er bara þakklátur fyrir að fá að vera í þessu teymi með Grím, Þóri, Jónda og alla í kringum þetta. Það er ekki síður skemmtilegt að fá að vinna með krökkunum í akademíunni. Það er mikið hjarta í þessum klúbbi og stefnan er góð. Þú þarft að hafa svolítið þor í það að búa leikmennina til. Það er auðveldari leið að kaupa.“

Við verðum að vera mættir 100%
„Stemmningin hefur verið frábær í vetur með fólkinu í stúkunni. Þetta var ekki alveg svona í upphafi tímabils en svo kom alltaf fleira og fleira fólk og nú ætlum við bara að mæta grimmir í úrslitakeppnina með þennan stuðning. Ég hlakka til. Þó að Stjarnan hafi steinlegið á móti FH í [gær]kvöld þá er alveg öruggt að þeir koma hingað til þess að vinna eins og öll lið,“ segir Patrekur.

En hvernig lýst honum á Stjörnuna?

„Ég kann mjög vel við félagið Stjörnuna,“ segir Patrekur og hlær. „Þetta er mitt uppeldisfélag og ég ber sterkar taugar til þess. Þeir hafa sýnt það á köflum, sérstaklega í seinni hluta mótsins að þeir geta spilað hörkuleiki. Við verðum að vera mættir 100%.“

Fyrri greinBesti árangur Selfoss frá upphafi
Næsta greinÞéttbýlið í Árborg ljósleiðaratengt fyrir árslok 2021