„Hrikalega ánægður“

Ágúst Björgvinsson, þjálfari kvennaliðs Hamars, var ánægður með sigurinn gegn Snæfelli í kvöld sem þó var nokkuð torsóttur.

„Ég er hrikalega ánægður með hvernig við klárum leikinn. Við spiluðum rosalega vel síðustu fimm mínúturnar, þá kom hörkukraftur í vörnina hjá okkur og við erum að skora mikið af stigum eftir góðan varnarleik,“ sagði Ágúst í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Leikurinn var auðvitað jafnari en lokatölurnar gefa til kynna. Varnarleikurinn var að angra okkur framan af og Slavica var komin í villuvandræði eftir fyrsta leikhluta. Við leystum það mjög vel en munurinn hefði getað verið meiri í hálfleik,“ sagði Ágúst. Hamar leiddi með 10 stigum í hálfleik, 51-41.

„Þetta er fyrsti leikur vetrarins og það eru auðvitað fullt sem þarf að laga. Við þurfum að vinna mest í varnarleiknum, við erum með frábær vopn í sókninni en þurfum að setja meiri áherslu á vörnina. En þetta er bara einn leikur og við erum ánægð í kvöld.“