Hrikaleg spenna í alþjóðarallinu

Þriðja umferð Íslandsmótsins í rallý, alþjóðlega keppnin Rallý Reykjavík, fór fram um síðustu helgi en stærstur hluti sérleiðanna var á Suðurlandi. Keppnin var hrikalega dramatísk og spennandi.

Strax í upphafi var ljóst að barist yrði með öllu afli þar sem eingöngu örfá stig skildu að efstu lið í Íslandsmótinu.

Fyrsta sérleiðin, Hvaleyrarvatn, átti einmitt eftir að marka keppnina en þar veltu þeir Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson bifreið sinni og féllu úr leik. Systkinin Daníel og Ásta Sigurðarbörn óku útaf, festu bíl sinn og töfðust um 20 mínútur þannig að þau voru í síðasta sæti eftir fyrsta daginn. Efstu menn Íslandsmótsins, Valdimar Jón Sveinsson og Skafti Skúlason, lentu einnig í vandræðum og voru í lok fyrsta dags einni mínútu á eftir Íslandsmeisturunum frá í fyrra, Baldri Haraldssyni og Aðalsteini Símonarsyni sem voru í forystu

Á öðrum keppnisdegi var að mestu ekið í nágrenni Heklu og héldu skakkaföll áfram að fylgja áhöfnunum. Í lok dagsins voru þeir Baldur og Aðalsteinn þó með örugga forystu og mikilvægt var því fyrir þá að keyra hratt en örugglega til að halda henni á þriðja og síðasta degi.

Þriðja sérleið þess dags var um Kaldadal. Spennan var mikil, taugarnar þandar og álagið gríðarlegt, bæði á bíla og áhafnir. Dalurinn reyndist því keppendum erfiður og fór svo að Guðni Freyr Ómarsson og Pálmi Jón Gíslason veltu bíl sínum og féllu úr leik, en þeir voru þá í öðru sæti. Einnig féllu Valdimar og Skapti úr leik en fleiri áhafnir urðu fyrir minniháttar skakkaföllum.

Úrslit keppninnar urðu á þann veg að Baldur og Aðalsteinn sigruðu, voru tæpum 9 mínútum á undan Daníel og Ástu sem tókst með frábærum akstri að vinna sig alla leið upp í annað sæti. Í þriðja sæti urðu svo Magnús Þórðarson og Hafdís Ósk Árnadóttir eftir harða keppni við hjónin Ólaf Ólafsson og Tinnu Rós Vilhjálmsdóttur og skildu einungis 9 sekúndur þessar áhafnir að eftir rúmlega þriggja klukkustunda sérleiðaakstur.

Eftir þessa keppni leiða Baldur og Aðalsteinn Íslandsmótið með 57 stig en Daníel og Ásta eru næst á eftir með 42,5 stig. Tvær umferðir eru eftir af mótinu og 40 stig eftir í pottinum.