Hreinn og Fjóla sigruðu í hástökki

Lið HSK varð í 5. sæti í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fram fór í Reykjavík í dag. Hreinn Heiðar Jóhannsson og Fjóla Signý Hannesdóttir sigruðu í hástökki á mótinu.

Hreinn Heiðar fór yfir 1,95 m í karlakeppninni og sigraði og Fjóla Signý sigraði í hástökki kvenna með stökk upp á 1,66 m.

Eva Lind Elíasdóttir varð önnur í 60 m grindahlaupi á 9,33 sek og þriðja í 200 m hlaupi á 26,80 sek. Kristinn Þór Kristinsson varð sömuleiðis annar í 1500 m hlaupi á 4:13,26 mín og þriðji í 800 m hlaupi eftir æsispennandi endasprett á tímanum 1:54,810 mín.

Íslandsmeistarinn Bjarni Már Ólafsson varð að láta sér lynda annað sætið í þrístökki en hann stökk 13,14 m.

Ágústa Tryggvadóttir dró fram keppnisgallann á nýjan leik og varð þriðja í kúluvarpi, kastaði 11,16 m og gamla brýnið Ólafur Guðmundsson varð þriðji í kúluvarpi karla með 13,53 m.