Hreinn Heiðar sveif yfir 1,97 m

Hreinn Heiðar Jóhannsson, HSK, sigraði og stökk yfir 1,97 m í hástökki á JJ móti Ármanns í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvellinum í kvöld.

Ágústa Tryggvadóttir, Selfossi, varð önnur í kúluvarpi þegar hún kastaði 11,08 m og Eyrún Halla Haraldsdóttir, Selfossi, varð þriðja með kast upp á 9,41 m. Eyrún varð síðan önnur í sleggjukasti kvenna, kastaði 22,48 m og Dagur Fannar Magnússon, Selfossi, varð annar í sleggjukasti karla með kast upp á 46,29 m. Ólafur Guðmundsson, HSK, varð þriðji í sleggjukastinu, kastaði 40,46 m.

Í spjótkasti varð Anna Pálsdóttir, Selfossi, þriðja þegar hún kastaði 34,13 m og Haraldur Einarsson, HSK, varð þriðji í 100 m hlaupi á 11,24 sek.

Í stúlknaflokki var Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi, önnur í sleggjukasti, kastaði 33,10 m

Mótið er hluti af Prentmet mótaröð FRÍ en að loknum tveimur umferðum leiðir Haraldur Einarsson í sprettflokki með 5 stig og Ólafur Guðmundsson er annar með 4 stig. Hreinn Heiðar hefur örugga forystu í stökkflokki með 8 stig en Bjarni Már Ólafsson er annar með 4 stig og Anna Pálsdóttir leiðir í kastflokki kvenna með 5 stig.

Fyrri grein„Þú verður að klára færin“
Næsta greinHamar jafnaði í uppbótartíma