Hrafnhildur og Eva keppa í dag

Evrópumeistaramótið í hópfimleikum hefst í dag í Malmö í Svíþjóð og eiga Selfyssingar þar fjölda glæsilegra fulltrúa.

Í unglingalandsliði Íslands eru þær Eva Grímsdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir. Þær keppa í dag, fimmtudag, kl. 17 að íslenskum tíma eða 19 að staðartíma.

Lið Selfoss HM1 tekur einnig þátt í mótinu um helgina en það er haldið í 4.000 manna íþróttahöll og er uppselt í hana bæði á föstudag og laugardag.

Sigríður Ósk Harðardóttir, fimleikaþjálfari, sagði í samtali við sunnlenska.is að allt gengi vel hjá Selfossliðinu. Þær skoðuðu íþróttahöllina í gær og æfðu þar í morgun og stemmningin í hópnum er góð. „Það er mikil tilhlökkun hjá stelpunum að stökkva og dansa í svona stórri höll. Stemmningin verður örugglega frábær þarna um helgina,“ sagði Sigríður Ósk.

Um tuttugu manna hópur foreldra, systkina og vina fylgir Selfossstelpunum til Svíþjóðar. Íslenski fáninn og Selfossfáninn eru með í för og það er alveg öruggt að hópurinn mun hvetja HM1, Hrafnhildi Hönnu, Evu og aðra þá sem keppa fyrir hönd Íslands að fullum krafti.