Hafnhildur Guðmundsdóttir, sundþjálfari í Þorlákshöfn, var gerð að heiðursfélaga Sundsambands Íslands á þingi sambandsins í lok mars.
Hrafnhildur er brautryðjandi í íslensku sundi og ein af fremstu sundkonum sem Ísland hefur alið. Hún keppti fyrir Íslands hönd á tveimur Ólympíuleikum, í Tókýó 1964 og Mexíkóborg 1968, og varð þar með ein af fyrstu íslensku konunum til að keppa á þessum stærsta alþjóðlega vettvangi íþrótta.
Hún var margfaldur Íslandsmeistari, fjölhæf og yfirburðar sundkona um langt árabil, ekki bara hér heima heldur líka á erlendum vettvangi. Á árunum 1963 til 1968 var hún fjórum sinnum á lista við kjör íþróttamanns ársins.
Eftir að keppnisferlinum lauk helgaði Hrafnhildur sig sundkennslu og þjálfun, lengst af í Þorlákshöfn og á Selfossi. Hún á farsælan þjálfaraferil að baki og þjálfaði hún meðal annars eigin börn sem eins og hún náðu góðum árangri í sundi.
Tveir aðrir voru gerðir að heiðursfélögum sambandsins á þinginu, þeir Guðmundur Gíslason og Eðvarð Þór Eðvarðsson. Guðmundur, sem keppti á fernum Ólympíuleikum, er ættaður frá Syðri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum og Eðvarð Þór, sem er einn besti sundmaður Íslands fyrr og síðar, þjálfaði og keppti fyrir Umf. Selfoss 1993-1994.
Selfyssingurinnn Júlía Þorvaldsdóttir var sæmd silfurmerki Sundsambands Íslands á þinginu en hún er varaformaður SSÍ. Ein breyting var á stjórn sambandsins en nýr stjórnarmaður er Magnús Tryggvason, sundþjálfari á Selfossi, sem hefur verið viðloðandi hreyfinguna í tugi ára.