Hrafnhildur afgreiddi Keflvíkingana

Hrafnhildur Hauksdóttir skoraði bæði mörk Selfyssinga í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lið Selfoss er komið upp í 3. sætið í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu eftir góðan sigur á Keflavík á útivelli í kvöld, 0-2.

Keflvíkingar voru ágengir í upphafi og léku með vindinn í bakið en Selfyssingar áttu sínar sóknir og á 11. mínútu skoraði Hrafnhildur Hauksdóttir eftir þvögu í teignum uppúr hornspyrnu. Keflavík sótti stíft á lokakafla fyrri hálfleiks en uppskar ekkert nema eitt stangarskot á 42. mínútu. 0-1 í hálfleik.

Selfyssingar gerðu svo út um leikinn strax á 6. mínútu seinni hálfleiks og aftur fór boltinn í netið uppúr þvögu eftir hornspyrnu og aftur var það Hrafnhildur sem var ákveðnust í teignum og rak smiðshöggið á sóknina.

Leikurinn var í jafnvægi í seinni hálfleik allt þar til á 68. mínútu að Karitas Tómasdóttir uppskar sitt annað gula spjald og þar með rautt. Manni færri gekk Selfyssingum ágætlega að verjast, Keflavík átti stangarskot á 76. mínútu og fékk svo vítaspyrnu á 82. mínútu eftir að Kelsey Wys braut af sér í markinu. Vítaspyrnan endaði í stönginni þannig að Selfyssingar héldu hreinu enn einn leikinn.

Selfoss hefur nú 22 stig og er komið upp í 3. sæti deildarinnar, uppfyrir Þór/KA sem er með 21 stig í 4. sæti þegar þrettán umferðir hafa verið spilaðar í deildinni.

Fyrri greinÞriðja tap Selfoss í röð
Næsta greinÓkeypis stórtónleikar í Þorlákshöfn í kvöld