Hrafn ráðinn aðalþjálfari Judofélags Suðurlands

Hrafn Arnarsson.

Judofélag Suðurlands hefur ráðið Hrafn Arnarsson sem nýjan aðalþjálfara félagsins. Hrafn tekur við starfinu með það fyrir augum að efla þjálfun félagsins, byggja upp sterkt keppendateymi og auka árangur félagsmanna á komandi árum.

Hrafn er fyrrverandi Íslandsmeistari og reynslumikill keppnismaður sem hefur iðkað judo í tæpa tvo áratugi þrátt fyrir ungan aldur. Hrafn var keppandi í landsliði Íslands á alþjóðavettvangi og hefur hann einnig starfað sem leiðbeinandi. Hann hefur þjálfað iðkendur á öllum aldri og er þekktur fyrir metnaðarfulla nálgun, jákvætt hugarfar og áherslu á einstaklingsmiðaða þjálfun.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri og hlakka til að vinna með íþróttamönnum félagsins, þjálfurum og stjórn,“ segir Hrafn. „Markmið mitt er að efla þjálfunina, stuðla að jákvæðri upplifun og hjálpa félaginu að ná nýjum hæðum í krafti samvinnu og árangursmiðaðrar þjálfunar.“

Í tilkynningu frá stjórn Judofélags Suðurlands er ráðningunni fagnað en stjórnin gerir ráð fyrir að undir leiðsögn Hrafns muni félagið styrkja stöðu sína innan íslensks íslensks judo og skapa enn sterkari vettvang fyrir iðkendur til að njóta sín í íþróttinni.

Hrafn mun hefja störf sem aðalþjálfari í febrúar með útfærslu á nýjum þjálfunaráætlunum og með áherslu á judo fyrir alla.

Þess ber að geta að á haustmánuðum fékk Judofélag Suðurlands húsnæði í World Class á Selfossi og stundar þar æfingar af kappi alla virka daga kl 18:30.

Fyrri greinArctic Adventures styrkir björgunarfélagið og slysavarnadeildina á Höfn
Næsta greinVel heppnuð afmælisveisla Stjörnunnar