Hraði og spenna í Þorlákshöfn

Þór Þorlákshöfn vann góðan sigur á taplausum Grindvíkingum, 92-83, þegar liðin mættust í Icelandic Glacial höllinni í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar höfðu undirtökin á upphafsmínútunum, spiluðu góða vörn og leiddu eftir tíu mínútur, 20-12.

Þeir skoruðu síðan fyrstu sex stigin í 2. leikhluta og komust fljótt í fimmtán stiga forystu, 29-14, sem þeir misstu svo niður í þrjú stig, 32-29 eftir mikinn klaufagang.

Þórsarar girtu sig í brók fyrir hálfleik og leiddu í leikhléinu, 42-34.

Robert Diggs byrjaði seinni hálfleikinn með látum, opnaði fjórðunginn á troðslu og skoraði svo þrjú stig til viðbótar úr körfu plús víti. Hraðinn í leiknum jókst nokkuð í seinni hálfleik en munurinn hélst svipaður allt fram á lokamínúturnar.

Staðan að loknum 3. leikhluta var 71-62 en Grindvíkingar byrjuðu betur í upphafi 4. leikhluta og jöfnuðu, 74-74, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum.

Spennan jókst, Græni drekinn var orðinn pirraður og farinn að spúa eldi, en Þórsurum gekk mjög illa að skora á tímabili. Þeir kláruðu hins vegar leikinn nokkuð vel á vítalínunni á lokamínútunum þar sem þeir náðu 7-2 kafla og lögðust að lokum að bryggju með tvö stig í lestinni.

Ben Smith átti mjög fínan leik fyrir Þór og var stigahæstur með 26 stig. Maður leiksins var hins vegar Robert Diggs sem lék Grindvíkinga grátt undir körfunni, skoraði 25 stig og tók 17 fráköst. Guðmundur Jónsson skoraði 15 stig, Darri Hilmarsson og Grétar Ingi Erlendsson 8, Darrell Flake 7 og Emil Karel Einarsson 3.

Fyrri grein„Ekki þekktir fyrir að sparka í liggjandi mann“
Næsta grein„Miðað við tímapunkt þá getur maður ekki kvartað mikið“