Höttur hafði betur

Hamar tapaði dýrmætum stigum í toppbaráttu 1. deildar karla í körfubolta í gærkvöldi þegar liðið tapaði fyrir Hetti á útivelli, 80-75.

Hamar byrjaði betur í leiknum og komst í 5-9 en þá skoraði Höttur þrettán stig í röð og leiddi að loknum 1. leikhluta, 18-14. Munurinn hélst svipaður í 2. leikhluta og staðan var 39-35 í hálfleik en Hamar skoraði síðustu fjögur stig fyrri hálfleiks.

Hvergerðingar mættu ekki nógu vel stemmdir til síðari hálfleiks, Höttur gekk á lagið og náði tuttugu stiga forystu, 65-45, en staðan var 67-49 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar byrjaði Hamar á 12-3 leikkafla og minnkaði forskot Hattar niður í 70-61. Þá tóku heimamenn við sér og hleyptu Hvergerðingum ekki nær.

Halldór Gunnar Jónsson og Calvin Wooten voru stigahæstir hjá Hamri með 15 stig. Þetta var fyrsti leikur Wootens sem átti ekki góðan leik og hitti mjög illa. Besti maður Hamars var þjálfarinn, Lárus Jónsson, sem skoraði 10 stig og sendi 8 stoðsendingar. Ragnar Nathanaelsson skoraði 8 stig og tók 9 fráköst, Louie Kirkman skoraði 7, Emil Þorvaldsson 6, Björgvin Jóhannesson 5 og Bjarni Rúnar Lárusson 4.

Þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni er Hamar í 4. sæti með 18 stig eins og Höttur en Hattarmenn hafa betur eftir að hafa unnið báða innbyrðis leiki liðanna.