Hörkuslagur og Selfoss vann með einu

Atli Ævar Ingólfsson skoraði sjö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og ÍBV buðu upp á háspennuleik í Olísdeild karla í handbolta í SET höllinni á Selfossi í dag. Eins og oft áður var uppskriftin alvöru Suðurlandsslagur sem lauk með eins marks sigri Selfoss.

Selfoss hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og var með þriggja marka forystu þegar hann var hálfnaður. Munurinn hélst svipaður fram að leikhléi og staðan var 18-15 í hálfleik.

Eyjamenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu að jafna, 21-21. Þá tóku heimamenn við sér og náðu fjögurra marka forystu þegar korter var eftir. Eyjamenn voru hins vegar ekki hættir og þeir söxuðu hratt á forskotið á lokamínútunum. Þegar fimmtán sekúndur voru eftir hófu Eyjamenn sókn í stöðunni 32-31 en lokaskotið geigaði og Selfyssingar fögnuðu sigri.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 5. sæti með 24 stig, þegar tvær umferðir eru eftir en ÍBV er í 3. sæti með 27 stig.

Atli Ævar Ingólfsson og Einar Sverrisson voru markahæstir Selfyssinga með 7 mörk. Atli Ævar var með 100% skotnýtingu og eitt marka Einars kom úr vítakasti. Ragnar Jóhannsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu 5 mörk, Hergeir Grímsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 2 og þeir Guðmundur Hólmar Helgason og Alexander Egan skoruðu 1 mark hvor.

Vilius Rasimas varði 14 skot í marki Selfoss og var með 31% markvörslu.

Fyrri greinKarl sæmdur gullmerki UMFÍ
Næsta greinDúkur Hamarshallarinnar nýttist Hamri í fjáröflun