Hörkuleikir gegn Haukum á Ragnarsmótinu

Einar Sverrisson skoraði átta mörk í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Það var tvíhöfði á Ragnarsmótinu í handbolta í kvöld þegar Selfoss og Haukar mættust bæði í karla og kvennaflokki.

Fyrri leikur kvöldsins var leikur karlaliðanna og þar var um hörkuleik að ræða. Selfoss hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi 20-16 í leikhléi. Haukar minnkuðu muninn í tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks en eftir það voru Selfyssingar skrefinu á undan stærstan hluta hálfleiksins og létu forystuna aldrei af hendi. Lokatölur urðu 34-32.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8/4 mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 7 og Guðmundur Hólmar Helgason 5. Vilius Rašimas varði 6 skot í marki Selfoss og var með 27% markvörslu og Alexander Hrafnkelsson varði 3 skot og var með 15% markvörslu.

Kvennaleikurinn var sömuleiðis skemmtilegur en Haukarnir voru skrefinu á undan stærstan hluta leiksins. Staðan í leikhléi var 11-13 en í upphafi seinni hálfleiks gáfu Haukarnir í og náðu mest sex marka forskoti, 17-23. Þá svöruðu Selfyssingar fyrir sig og náðu að minnka muninn niður í tvö mörk áður en yfir lauk, lokatölur urðu 26-28.

Tinna Traustadóttir og Lara Zidek skoruðu báðar 9 mörk fyrir Selfoss og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 4. Í markinu varði Henriette Östergard 11 skot og var með 32% markvörslu og Lena Ósk Jónsdóttir varði 5 skot og var með 50% markvörslu.

Í gærkvöldi mættist Afturelding og ÍBV í karlamótinu og þar sigraði Afturelding 32-28. Hin viðureign gærkvöldsins var leikur Hauka og Fram þar sem Haukar unnu öruggan 33-22 sigur.