Hörkukeppni framundan um helgina

Bikarmót Fimleikasambands Íslands í hópfimleikum hefst í Iðu á Selfossi í dag en Umf. Selfoss sér um mótahaldið.

Yngri iðkendur keppa í dag og hefst sá hluti mótsins klukkan 18:40. Fimm lið keppa í 2. flokki og mætir Selfoss til keppni með tvö lið, HM3 og Selfoss Mix. Í 1. flokki keppa einnig fimm lið og keppir HM2 fyrir Selfoss. Það verður gaman að fylgjast með liðunum frá Selfossi sem skipuð eru efnilegum fimleikamönnum sem unnið hafa til fjölda verðlauna undanfarin ár.

Á morgun, laugardag, kl. 14:00 hefst keppni í meistaraflokki úrvaldsdeildar og þar mæta m.a. til keppni Evrópumeistarar kvenna í hópfimleikum 2010 og karlalið Gerplu sem var í 4. sæti á sama móti.

Selfoss HM1 stefnir að þátttöku á Norðurlandamóti fullorðinna sem fram fer í Noregi nk. haust, en aðeins tvö lið munu keppa þar fyrir hönd Íslands. Mótið um helgina er fyrsta af þremur úrtökumótum fyrir Norðurlandamótið. Undanfarin ár hefur Selfoss HM1 og Stjarnan í Garðabæ keppt um annað sætið á stórmótum í hópfimleikum hér á landi og má reikna með að svo verði einnig á mótinu um helgina.

Sunnlendingar eru hvattir til að mæta í Iðu til að hvetja sitt fólk og til að horfa á hópfimleika eins og þeir gerast bestir á Íslandi í dag – og þó víða væri leitað!