Hörkueinvígi framundan gegn Haukum

Haukur Þrastarson skoraði 10 mörk, þar af þrjú úr vítum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Einvígi Selfoss og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta hefst í kvöld kl. 18:30 á Ásvöllum í Hafnarfirði.

„Það var virkilega sterkt hjá okkur að klára Val í þremur leikjum í undanúrslitunum og gaf okkur góða hvíld og góðan tíma til að undirbúa okkur fyrir Haukana. Mér líst vel á einvígið gegn Haukum og tel okkur eiga góða möguleika þar. Þetta eru tvö góð lið og verður hörkueinvígi,“ segir skyttan Haukur Þrastarson í samtali við selfoss.net. Hann segir stuðning áhorfenda skipta miklu máli í einvíginu.

„Það var ótrúlegt að finna stuðninginn í einvíginu gegn Val og sérstaklega hér heima. Við erum með bestu stuðningsmenn á landinu og þeir gefa okkur strákunum þennan auka kraft til að klára leikina. Það væri geggjað að fylla Ásvelli í kvöld,“ segir Haukur.

Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki tryggir sér Íslandsmeistaratitilinn. Leikur tvö verður á Selfossi á föstudagskvöld kl. 19:30 og þriðji leikurinn á Ásvöllum á sunnudagskvöld kl. 18. Leikur fjögur er áætlaður miðvikudaginn 22. maí kl. 19:30 og komi til oddaleiks verður hann á Ásvöllum 24. maí kl. 19:30.

Fríar sætaferðir frá Selfossi
Fríar sætaferðir verða á leikinn í kvöld í boði Guðmundar Tyrfingssonar. Hægt er að skrá sig í rútuna hér.

Fyrri greinFyrstu stig Selfyssinga í húsi
Næsta greinRíkið dæmt til að greiða GOGG 234 millj­ón­ir