Hörður í ham gegn Hömrunum

Selfoss vann öruggan sigur á Hömrunum í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Vallaskóla urðu 27-22.

Selfyssingar fóru mikinn í sókninni í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi, 17-14. Hamrarnir minnkuðu muninn í eitt mark í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku Selfyssingar við sér, náðu fimm marka forskoti og héldu gestunum vel frá sér eftir það, þó lítið væri skorað síðustu fimmtán mínútur leiksins.

Hörður Másson var í miklum ham í sókninni og var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Andri Már Sveinsson, Egill Eiríksson, Árni Geir Hilmarsson og Jóhann Erlingsson skoruðu allir 3 mörk, Guðjón Ágústsson, Daníel Róbertsson, Egidijus Mikalonis og Ómar Helgason 2 og Sverrir Pálsson 1.

Sölvi Ólafsson átti fínt kvöld í rammanum, varði 23 skot og var með 51% markvörslu.

Fyrri greinSamið við kvenfélagskonur um gerð margnota innkaupapoka
Næsta greinESA vill áætlun gegn hávaða á götum í Árborg