Hörður kominn upp á vegg

Hörður Bjarnarson, fyrrverandi fyrirliði karlaliðs Selfoss í handbolta, var heiðraður fyrir leik Selfoss og ÍH í 1. deildinni í gærkvöldi.

Hörður afhjúpaði skilti með nafni sínu og númeri uppi á vegg í íþróttahúsinu í Vallaskóla. Þessi heiður hlotnast þeim leikmönnum sem hafa sýnt Selfossliðinu tryggð og leikið tíu ár með félaginu. Hörður hefur reyndar gert gott betur en það því hann lék með Selfossi frá árinu 1999 þangað til hann lagði skóna á hilluna í vor, eftir fjórtán ára feril í meistaraflokki.

Hörður lék 259 deildarleiki fyrir Selfoss og skoraði í þeim 591 mark, auk fjölda bikar- og æfingaleikja.

Nafn hans og númer er nú komið upp á vegg til minningar og varðveislu og er Hörður þar í góðum félagsskap Ramunas Mikalonis sem lék með Selfyssingum frá 2000 til 2010.

Fyrri greinAfmælisveisla í listasafninu í dag
Næsta greinBúið að rífa Sandvíkurhluta Snælands