Hörð botnbarátta framundan

FSu beið lægri hlut þegar liðið heimsótti Skallagrím í Borgarnes í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Heimamenn sigruðu 101-83.

Skallagrímur lagði grunninn að sigrinum í 1. leikhluta en heimamenn komust í 6-0 og 18-6 en staðan var 30-19 eftir 1. leikhluta. 2. leikhluti var jafn en FSu tókst ekki að minnka bilið og staðan var 58-43 í hálfleik.

Það var jafnræði með liðunum í seinni hálfleik en bæði lið skoruðu 21 stig í 3. leikhluta. Staðan var 79-63 að honum loknum en heimamenn juku forskotið um tvö stig í síðasta fjórðungnum.

Bjarni Bjarnason var bestur í liði FSu í kvöld, einu stigi frá þrefaldri tvennu. Bjarni skoraði 10 stig, tók 9 fráköst og sendi 11 stoðsendingar. Kjartan Kjartansson og Steven Crawford voru stigahæstir með 20 stig, Orri Jónsson skoraði 14 og Sæmundur Valdimarsson 11.

Þegar fimm umferðir eru eftir er FSu með 8 stig í 8. sæti og hefur betur í innbyrðis viðureignum gegn ÍG sem er í 9. sæti, sömuleiðis með 8 stig. Stutt er í næstu lið fyrir ofan en það er ljóst að FSu verður í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni í síðustu leikjum vetrarins.