Hólmfríður rauf 300 leikja múrinn

Einar Karl Þórhallsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna, afhenti Hólmfríði blóm og viðurkenningarskjöld í tilefni af tímamótaleiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnukonan Hólmfríður Magnúsdóttir náði merkum áfanga þegar flautað var til leiks í leik Selfoss og ÍBV í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag.

Þetta er 300. deildarleikur Hólmfríðar en hún er aðeins önnur íslenska knattspyrnukonan til þess að ná þessum áfanga. Leikjahæst er Katrín Jónsdóttir með 336 leiki.

Hólmfríður spilaði sinn fyrsta deildarleik sextán ára gömul fyrir KR árið 2000. Hún lék 109 leiki í KR-treyjunni en eftir það með ÍBV, Kristianstad í Svíþjóð, Philadelphia Independence í Bandaríkjunum, Val, Avaldsnes í Noregi og loks fjórtán leiki með Selfoss í sumar.

Fyrir leikinn í dag var Hólmfríður heiðruð af knattspyrnudeild Selfoss fyrir að ná þessum áfanga. Leikurinn hófst kl. 14:00 og er síðasti leikur Selfosskvenna í sumar, en liðið mun ljúka keppni í 3. sæti deildarinnar, sama hver úrslitin verða í dag. 

Fyrri greinAðalleið bauð lægst í Laugarvatnsveg
Næsta greinSelfoss sat eftir þrátt fyrir sigur