Hólmfríður aftur til Avaldsnes

Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnukonan Hólmfríður Magnúsdóttir hefur samið við norska úrvalsdeildarliðið Avaldsnes og mun því ekki leika meira með Selfyssingum í sumar.

Hún staðfesti þetta í samtali við sunnlenska.is síðdegis í dag. Hólmfríður þekkir vel til hjá Avaldsnes en hún spilaði 70 leiki fyrir félagið á árunum 2012 til 2020.

„Mér finnst þetta mjög spennandi tækifæri fyrir mig og stór viðurkenning eftir góða frammistöðu með Selfossi í sumar og síðasta sumar. Ég ætlaði ekki að fara aftur í fótbolta eftir að hafa eignast barn en Selfoss gaf mér tækifæri og ég hef átt frábæran tíma hér, en mér finnst að ég geti gefið aðeins meira í og spilað í sterkari deild. Avaldsnes hefur fylgst vel með mér og liðið er í hörku toppbaráttu og komið í undanúrslit í bikar þannig að þau vilja styrkja sig fyrir lokakafla tímabilsins,“ segir Hólmfríður.

„Þetta er mjög sterkt lið með marga landsliðsmenn og það verður gaman að sjá hvar ég stend þarna úti og hvort ég get stimplað mig inn í liðið, þar sem ég er ekki á landsliðsleveli hérna heima. Það gefur mér góða vítamínsprautu að fá þetta tækifæri og ég er staðráðin í því að sanna mig.“

Hólmfríður fer út til Noregs strax á föstudaginn. Keppnistímabilinu í Noregi lýkur í nóvember og Hólmfríður kemur aftur heim á Selfoss í desember.

„Ég stefni að því að koma tvíefld aftur á Selfoss, enda kemur ekkert annað til greina fyrir mig en að spila fyrir Selfoss á Íslandi. Ég er mjög stolt af því að tilheyra Selfossfjölskyldunni og er ákaflega þakklát Selfyssingum fyrir liðlegheitin og að gera mér þetta mögulegt,“ segir Hólmfríður að lokum.

Fyrri greinFlugvél brotlenti í Flóahreppi
Næsta greinKári hlaut náttúruverndar-viðurkenningu Sigríðar í Brattholti