„Höldum okkur á jörðinni“

Selfyssingar unnu góðan sigur á Leikni í bráðfjörugum leik á Selfossvelli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Javier Zurbano skoraði þrennu í 4-2 sigri Selfoss.

„Ég er hrikalega ánægður með þennan sigur og ekki síst að ná að skora þrennu fyrir Selfoss í fyrsta skipti,“ sagði Javier Zurbano í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn. „Þetta var góður liðssigur og við börðumst vel um allan völl. Sóknarleikurinn gekk líka ágætlega og strákarnir voru duglegir að mata mig með sendingum,“ sagði Lacalle en með sigrinum stimpluðu Selfyssingar sig inn í efri hluta stigatöflunnar. „Við erum búnir að vinna tvo góða sigra í síðustu leikjum og erum taplausir í síðustu fimm leikjum en við höldum okkur bara niðri á jörðinni og horfum til næsta leiks,“ sagði Zurbano að lokum.

Leikurinn var í járnum fyrsta korterið en á 18. mínútu galopnuðu Selfyssingar vörn Leiknis. Sindri Snær Magnússon stakk boltanum inn á Svavar Berg Jóhannsson sem var einn á móti markmanni Leiknis en renndi boltanum til hliðar á Zurbano sem var í enn betra færi og skoraði í autt markið.

Eftir markið brýndu Leiknismenn takkana og sóttu fast að Selfyssingum en Jóhann Ólafur Sigurðsson var vandanum vaxinn og rúmlega það og tók það sem kom á rammann, auk þess sem tréverkið tók við einu skoti Leiknis.

Á 24. mínútu komust Selfyssingar í 2-0. Svavar Berg renndi boltanum innfyrir á Ingólf Þórarinsson sem þrumaði að marki en markvörður Leiknis sá við honum. Frákastið fór hins vegar út í teiginn þar sem spænski gammurinn var mættur og potaði boltanum aftur í autt markið.

Leiknismenn voru sterkari síðasta korterið í fyrri hálfleik og áður en þeir minnkuðu muninn á 42. mínútu höfðu Selfyssingar þurft að beita nauðvörn til að halda boltanum frá marki. Vörnin gaf sig hins vegar undir lokin og staðan var 2-1 í hálfleik.

Gunnar Selfossþjálfari Guðmundsson gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik þar sem Luka Jagacic og Bjarki Már Benediktsson fóru útaf vegna veikinda og meiðsla en Joe Yoffe og Bernard Brons komu inná. Yoffe var fljótur að stimpla sig inn í leikinn en hann komst inn í sendingu Leiknismanna á 51. mínútu og lagði knöttinn í bláhornið með skoti af vítateigslínunni. Tveimur mínútum síðar komst Yoffe aftur einn í gegn eftir frábæra sendingu Sindra Snæs en Leiknismenn komust fyrir boltann á síðustu stundu.

Leiknir gerði tvöfalda skiptingu á 56. mínútu og hleypti hún miklu lífi í Breiðhyltinga. Reyndar svo miklu að þeir minnkuðu muninn í 3-2 á 60. mínútu. Markið var rándýrt en Ólafur Kristjánsson skoraði þá með hjólhestaspyrnu uppúr hornspyrnu en skömmu áður hafði hann skallað boltann í þverslána á marki Selfoss.

Gestirnir héldu áfram að sækja en Selfyssingar náðu hins vegar að tryggja sér sigurinn á 70. mínútu þegar Yoffe fór upp hægra meginn og sendi góðan bolta inn í teig þar sem Zurbano var mættur og skallaði glæsilega í netið til að kóróna þrennuna.

Leiknismenn voru meira með boltann eftir þetta og það beit ekkert á þá þó að Kristinn Jakobsson, dómari, fækkaði þeim niður í tíu með rauðu spjaldi á 78. mínútu. Manni færri voru Leiknismenn ógnandi og áttu meðal annars sláarskot auk þess sem Jóhann Ólafur átti eina sjónvarpsmarkvörslu á lokakaflanum.

Allt kom fyrir ekki hjá gestunum og lokatölur urðu 4-2.

Þetta var fyrsti leikur 9. umferðar og Selfyssingar eru nú komnir upp fyrir Leikni, í 5. sæti með 14 stig. Þar fyrir ofan eru þrjú lið með 15 stig og Grindavík á toppnum með 18 stig.

Fyrri greinÓku utan vega í Lakagígum
Næsta greinEldur í rúlluvél