Hola í höggi eftir 28 ára bið

Hlynur Geir búinn að veiða kúluna upp úr holunni á sautjándu í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Gunnhildur Hjaltadóttir

Kylfingurinn þrautreyndi, Hlynur Geir Hjartarson úr Golfklúbbi Selfoss, náði draumahögginu í morgun á 17. braut í Vestmannaeyjum.

Það sem kemur aðdáendum Hlyns kannski mest á óvart er að þetta er í fyrsta skipti sem hann fer holu í höggi – eftir 28 ára feril í golfinu.

„Eftir 28 ár í golfi og mjög marga golfhringi kom loksins að þessu. 132 metrar, 9 járn, logn og sól,“ sagði Hlynur, sem var í sjöunda himni eftir höggið, enda sú sautjánda í Vestmannaeyjum engin smá braut.

„Þetta var geggjað og ólýsanlega gaman og að gera þetta með Gunnhildi [Hjaltadóttur, eiginkonu Hlyns] var stór plús. Kalli Haralds í GV sagði að ég væri sá fjórði sem nær að fara holu í höggi á 17. holu frá upphafi,“ bætti Hlynur Geir við.

Hlynur var að spila æfingahring fyrir Íslandsmótið í golfi sem hefst í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn.

Fyrri greinStóráfallalaus verslunarmannahelgi hjá lögreglunni
Næsta greinRichard framlengir og tekur bandið