Hnífjafn Suðurlandsslagur

Óli Gunnar Gestsson sækir að körfu Hamars en Baldur Freyr Valgeirsson er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann Hamar í háspennuleik í Gjánni á Selfossi í kvöld, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfubolta, 79-76.

Hamarsmenn voru betri í upphafi leiks og leiddu 9-17 eftir rúmlega fimm mínútna leik. Þá fyrst tóku Selfyssingar við sér, spiluðu hörkuvörn og komust yfir, 23-22, að fyrsta leikhluta loknum. Hamar var skrefinu á undan framan af 2. leikhluta en undir lok hans kom góður kafli hjá Selfyssingum sem komust níu stigum yfir en staðan var 47-40 í leikhléi.

Áfram var mjótt á mununum í 3. leikhluta en nú voru það Selfyssingar sem stýrðu ferðinni og leiddu allan leikhlutann. Í 4. leikhluta fóru leikar hins vegar að æsast, Hamar jafnaði 61-61 og eftir það var leikurinn hnífjafn. Trevon Evans var þyngdar sinnar virði í gulli á lokakaflanum því hann setti niður tvær þriggja stiga körfur í röð þegar rúmlega mínúta var eftir og tryggði Selfyssingum sigurinn.

Evans var bestur hjá Selfyssingum og skoraði 34 stig en hjá Hamri var Dareial Franklin öflugastur með 24 stig og 10 fráköst.

Selfyssingar hafa nú 10 stig og lyftu sér upp í 5. sætið en raunir Hamars halda áfram. Liðið er í næst neðsta sæti deildarinnar með 4 stig.

Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 34 stig, Gasper Rojko 17/9 fráköst, Óli Gunnar Gestsson 10/12 fráköst, Vito Smojer 8, Styrmir Jónasson 6, Arnar Geir Líndal 2, Sigmar Jóhann Bjarnason 2.

Tölfræði Hamars: Dareial Franklin 24/10 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 16/6 stoðsendingar, Maciek Klimaszewski 15, Joao Lucas 10/7 fráköst, Ragnar Magni Sigurjónsson 9, Haukur Davíðsson 2.

Fyrri greinVarað við ferðum á Grímsfjall
Næsta greinUngmennin skelltu Fjölni á útivelli