Hnífjafn háspennuleikur í Eyjum

Lið Selfoss og ÍBV skildu jöfn, 28-28, í æslspennandi leik í Olís-deild karla í handbolta í Vestmannaeyjum í kvöld.

Leikurinn fór mjög hægt af stað og staðan var aðeins 2-2 eftir tíu mínútna leik. Annars var jafnt á nánast öllum tölum lengst af, en Selfoss náði tveggja marka forskoti undir lok hálfleiksins, 7-9. Staðan var 11-12 í hálfleik og bestu menn fyrri hálfleiksins voru markverðir liðanna, Helgi Hlynsson og Stephen Nielsen. Helgi varði 13 skot í fyrri hálfleik og Nielsen 11.

Selfoss skoraði tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleik og komst í 11-14 en heimamenn jöfnuðu strax, 14-14. Um miðjan seinni hálfleikinn var staðan 22-20, ÍBV í vil en í kjölfarið kom 1-4 kafli hjá Selfyssingum sem komust þá aftur yfir, 23-24.

Lokamínúturnar voru æsispennandi og jafnt á öllum tölum. ÍBV fékk boltann í stöðunni 28-28 þegar 45 sekúndur voru eftir af leiknum. Eyjamenn tóku leikhlé og freistuðu þess að nýta tímann til fulls. Þeir gerðu áhlaup á lokasekúndunni en vörn Selfoss var föst fyrir og ÍBV fékk aukakast um leið og leiktíminn rann út. Minnstu munaði að heimamönnum tækist að skora úr aukakastinu, framhjá varnarvegg Selfoss, en Einar Vilmundarson komst naumlega fyrir skotið. Lokatölur 28-28.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Einar Sverrisson og Alexander Egan skoruðu báðir 5 mörk, en hægra hornið var að gefa vel hjá Selfyssingum í kvöld. Hergeir Grímsson skoraði 3, Teitur Örn Einarsson 3/1, Guðni Ingvarsson og Guðjón Ágústsson skoruðu báðir 2 mörk og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Árni Geir Hilmarsson skoruðu 1 mark hvor.

Helgi Hlynsson varði 17 skot í marki Selfoss og Einar Vilmundarson 7.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 17 stig en ÍBV hefur 19 stig í 5. sætinu.

Fyrri greinLava setrið opnar 1. júní næstkomandi
Næsta greinNýr samningur tryggir öflugt starf Hamars