Hlynur Torfi byrjar keppnisferilinn af krafti

Hlynur Torfi eftir sigurinn á Ahoj. Ljósmynd: Jarno Juutinen/MMA Viking

Selfyssingurinn Hlynur Torfi Rúnarsson hefur náð góðum árangri í MMA bardagaíþróttinni á síðustu vikum og unnið tvo fyrstu keppnisbardaga sína.

Hlynur Torfi, sem er 25 ára og keppir í léttvigt, hefur æft MMA í þrjú ár en hann byrjaði ferilinn í GYM 800 á Selfossi undir leiðsögn Brynjólfs Ingvarssonar en hóf svo að æfa í Mjölni í Reykjavík. Hann flutti svo til Finnlands í sumar með kærustu sinni og æfa þau bæði í Finn Fighers Gym í Turku.

Hlynur Torfi keppti í sínum fyrsta bardaga í flokki áhugamanna á Suomi MMA Cup í Finnlandi í október og sigraði þar heimamanninn Ivan Winters, talsvert reyndari bardagamann. Hlynur gerði sér lítið fyrir og kláraði Winters með hengingartaki strax í 1. lotu.

Nú í nóvember mætti Hlynur Torfi svo öðrum Finna, Markus Ahjo, á MMA Cup Lahti. Ahoj, sem er hnefaleikamaður í grunninn, var að keppa í sínum fyrsta MMA bardaga. Aftur byrjaði Hlynur Torfi af krafti og kláraði Ahjo örugglega með hengingartaki strax í 1. lotu. Hann var svo valinn besti bardagamaður keppninnar að móti loknu.

Hér fyrir neðan er viðtal við Hlyn Torfa frá Ikuinen Peruskurssi eftir sigurinn á Ahoj.

Fyrri greinVeiðimaður í sjálfheldu við Skaftá
Næsta greinGul viðvörun: Stormur og ofankoma